Dale Hill er flott golfhótel, sem er staðsett austan við Gatwick flugvöll, þó aðeins 50 mínútur frá flugvellinum. Herbergin eru rúmgóð og vel útbúin. Á öllum herbergjum er flatskjár, kaffi- og tekanna. Baðherbergin eru stór með baðkari og stórri sturtu. Hótelgestir hafa aðgang að sundlaug og gufuböðum. Á hótelinu er þráðlaust net, tveir veitingastaðir, tveir barir, svo eitthvað sé nefnt.
Hótelinu fylgja tveir mjög góðir 18 holu golfvellir, Old Course og Woosnam course, auk góðs æfingasvæðis. Woosnam-völlurinn er sannkallaður Championship völlur. Ian Woosnam lét hafa eftir sér skömmu eftir að völlurinn var tekinn í notkun að hann hefði hannað völlinn með jafnvægi að leiðarljósi. Völlurinn væri nógu erfiður fyrir atvinnumenn en á sama tíma nógu auðveldur fyrir áhugamenn og forgjafarhærri kylfinga. Honum tókst ætlunarverk sitt. Völlurinn er 5430 metra langur af gulum teigum og par 71. Fyrstu holur vallarins eru vinalegar og einn af helstu kostum vallarins er að á mörgum brautum er dræverinn algjörlega óþarfur.
Eldri völlurinn á Dale Hill er samnefndur golfsvæðinu og var tekinn í notkun árið 1973. Mjög skemmtilegur 18 holu völlur og öllu auðveldari en nágranni sinn. Völlurinn er nokkuð styttri en Woosnam-völlurinn, er 4960 metrar að lengd af gulum teigum og spilast sem par 69. Fyrri níu holurnar eru tiltölulega opnar en skógurinn spilar meiri rullu á seinni níu og brautirnar talsvert þrengri. Skemmtilegur golfvöllur þar sem miklu skiptir að halda boltanum í leik. Saman mynda Dale Hill og Woosnam-vellirnir öflugt tvíeyki golfvalla sem kylfingar fá seint leið á. Grein um Dale Hill: http://www.visir.is/dale-hill-perla-i-enskri-sveitasaelu/article/2014140…