The Oxfordshire er frábært golfhótel með einum af okkar uppáhaldsvöllum á Londonsvæðinu. Þetta nýja hótel er í aðeins 40 mínútna fjarlægð frá Heathrow flugvelli og aðeins 30 mín frá Oxford. Landareignin er rúmlega eitt hundrað hektarar af sveitasælu í skjóli frá ys og þys stórborgarinnar. Hótelið er 4 stjörnu og á því eru 50 herbergi. Á hótelinu eru 2 veitingastaðir, bar, lounge með fríu interneti heilsulind og sundlaug. Klúbbhúsið er hluti af hótelinu, þar er enn einn veitingastaður og bar, risastórt búningsherbergi með sturtuaðstöðu og pro shop. Fyrsti teigur á golfvellinum er nokkur skref frá hótelinu ásamt æfingasvæðinu og púttflötum.
Golfvöllurinn er Par 72 og hannaður af Rees Jones. Völlurinn er 6.700 metrar af öftustu teigum og gríðarlega skemmtilegur. Við spiluðum hann af gulum teigum þar sem hann er 5.600 metrar. Af rauðum teigum er völlurinn 5.000 metrar. Völlurinn byrjar skemmtilega. Fyrsta holan er 350 metra löng par 4 hola. Teigurinn er upphækkaður og eina hættan er sandglompa sem er vinstra megin við brautina. Lengstu menn eiga möguleika á að fara inná flöt í teighögginu. Önnur holan er þægileg par 3 hola 115 metrar. Kylfingar eiga að geta farið vel af stað á þessum velli. Allar átján holur vallarins eru mjög skemmtilegar og einstakar. Uppáhaldsholurnar okkar eru 4., 7., 8., 17. og 18. Grein um The Oxfordshire.